<$BlogRSDUrl$>

Thursday, December 02, 2004

Jæja jæja
Þá er að kíkja yfir á nýju síðuna. Ýttu hérna og þú flýgur yfir í nýjan heim. Einnig er tengill hér hægra megin sem færar þig á sömu slóð.

Jæja
Þá fer að líða að því. Nei, ég er búinn að tala nóg um mín íbúðarmál, ekki það. heldur er ég að fara að færa bloggsíðuna. Þar sem mér gengur ekkert að laga commentkerfið hjá mér, ákvað ég að færa mig. Fer yfir á íslenskt svæði og læt vita og sýni tengil þegar þar að kemur. Tek eitt skref í einu og vinn hægt.

Wednesday, December 01, 2004

Jólin koma
Þá er jólamánuðurinn genginn í garð. Ég hef satt að segja ekki orðið jafn mikið var við jólin núna eins og oft áður. Hamagangurinn hefur oft verið meiri og keppnin um athygli einnig. Kannski er ég bara svona einangraður í minni holu að ég sé ekki lætin fyrir utan. Ég hlusta mögulega minna á útvarp en ég hef varla heyrt jólalag í ljósvakanum. Jólastemningin verður vonandi bara meiri fyrir vikið á sjálfum jólunum en þetta eru handónýt jól fyrir launþega, atvinnurekendajól, puh. Aðfangadagur og gamlársdagur koma upp á föstudegi svo þetta eru rétt rúmar helgar í frí. Best að gera vel úr því sem verður. Íbúðin verður komin í mínar hendur í næstu viku, tra la la.

Tuesday, November 30, 2004

Hálfur maður handalaus?
Það er merkilegt hvað maður getur orðið fatlaður ef tölvan er ekki fyrir hendi. Stór hluti af vinnu fólks í dag fer fram í gegnum tölvu og þannig er því farið með mig. Hvort sem ég er að starfa við útgáfustörf fyrir Vegagerðina, vinna við tímaritið Útiveru eða semja tónlist, allt fer þetta fram á tölvu að meira eða minna leyti. Svo er nú komið hjá mér að tölvan hjá Vegagerðinni er í viðgerð þar sem mér var um megn að laga hana sjálfur svo nú sit ég ...
... hm, sem ég segi, maður getur ekki án tölvu verið. Þó tölvan mín sé í viðgerð, þá sit ég hér fyrir framan aðra tölvu og blogga á netið. Satt að segja fannst mér ég handalaus án vinnutækisins en fatta í raun núna, meðan þetta er skrifað, að ég er í raun ekki tölvulaus. Aðalvinnutækið er í viðgerð en ég gríp bara næsta tæki " og jeg glor paa monitoren". Ég hef fundið þessa tilfinningu einnig þegar heimilisvinnutækið hefur bilað. Ég er bara hálfur maður og verð ómögulegur. En ef þetta varir nokkra daga þá bráir þetta af mér og ég tek til við önnur störf. Það er farið í bíó, mögulega tekið til heima (þýð. bunkum umstaflað og færðir til) og jafnvel vinir heimsóttir, nokkuð sem maður er aldrei nógu duglegur við.
Talandi um að taka til heima hjá mér þá fer ég brátt að eignast heimili. Ég get lítið tekið til heima hjá mér nema umstafla kössum í hrúgunni af innbúinu. Núna eru 10 dagar í það að ég fái íbúðina, niðurtalning heldur áfram.
Í kvöld fer ég á söngæfingu, þá fyrstu í nokkur ár. Spurning hvort maður, kominn á fimmtugsaldurinn, nái úr sér hálsræmunni og stynji upp nokkrum tónum.

Monday, November 29, 2004

Niðurtalning
Nú eru innan við tvær vikur þar til ég fæ afhenta íbúðina og jafnvel styttra en ég átti von á. Það er því hér með auglýst eftir fólki sem er tilbúið að hjálpa mér að mála íbúðina og flytja búslóðina en ég fæ afhent í síðasta lagi 10. desember. Ég erfi það ekki við fólk þó það bjóði sig ekki fram, þetta er tími jólastressins og annarra láta svo eflaust verð ég fámennur að dunda mér við þetta.
Datt í föndur um helgina. Kynntist því hvernig maður býr til skemmtilegt skraut úr tepokapokum eða umslögunum utan af tepokunum. Þetta var þrælskemmtilegt og ótrúlegt hvað hægt er að gera skemmtilega hluti úr jafn einföldu og ódýru hráefni sem liggur framan við nefið á okkur.

Wednesday, November 24, 2004

Megrunarvörur, fegrunarvörur
Stundum er það þannig að maður hefur svo mikið að gera að maður veit ekki hvar maður á að byrja. Þá á maður það til að leggjast fyrir og bíða eftir að þetta líði hjá, þ.e. tilfinningin að hafa mikið að gera. Áður fyrr var þetta bara kallað leti. Í dag er hraðinn svo mikill á öllu að við þurfum að læra að slappa af, gera ekki neitt. Líkaminn er byggður til að sjá um þetta sjálfur á meðan við sofum en nú á tímum má fólk ekki var að því að sofa og gefur sér því ekki tíma til að endurnærast, hlaða batteríin upp á nýtt. Eins og ávallt eru til töfralæknar sem hafa ráð undir rifi hverju. Töfralæknar nútímans eru margir hverjir að selja okkur eitthvað sem á að gera líf okkar fullkomið, skyndilausnir. Við eigum að vera líkamlega byggð eftir formúlum, við eigum að vera frábær í alla staði og fullkomin en aldrei er hægt að vera ánægður með það sem maður hefur. Fyrir mörg hundruð árum vissi fólk að megrun er ekki heillavænlegur kostur til að breita um lífsstíl. Töfraráð eru fá þegar til lengri tíma er litið en skyndilausnir seljast samt alltaf vel. Í hraða nútímans er mjög gott að geta tekið inn töflu eða mála á sig grímu til að fela það sem við höfum og okkur er ekki leyft að vera sátt við. Jólin eru ávallt sá tími sem fólk hugsar til sem tími kyrrðar og nálægðar sinna nánustu en snýst ávallt upp í andhverfu sína; stress, læti og allt of stuttan tíma til að geta slappað af. Skyldi það breytast þessi jól?

Monday, November 22, 2004

Kökubakstur
Aldrei þessu vant stóð ég í jólakökubakstri um helgina. Þar sem ég á tvær dætur kom upp sú hugmynd að leyfa þeim að baka piparkökur. Þær komu að vísu ekki nálægt deig gerðinni sjálfri og því ekkert piparkökusönglagaslys á ferð en það voru stoltar ungar dömur sem gengu frá jólakökuboxunum sínum eftir vel heppnaðar aðgerðir. Þær voru greinilega ekki óvanar að meðhöndla deig og komu föður sínum stöðugt á óvart með fimum fingrum við hnoð og skurð. Það var því eki síður stoltur faðir sem gekk frá borði eftir þetta. Þetta varð líka til þess að ég komst í jólaskap, óvenju snemma þetta árið.
Maður upplifir jólin í gegnum börnin.

Saturday, November 20, 2004

Samur við mig
Það virðist alltaf detta út hjá mér að blogga. Maður tekur á sig rögg og svo eftir örfá skipti er maður sofnaður á verðinum. En batnandi manni er best að lifa. Tíminn líður áfram eins og óð fluga og maður er alltaf að missa af einhverju. Er ekki svo hjá okkur öllum, það er svo margt að gerast að við komumst ekki yfir allt? Við getum í sumum tilfellum lesið um það í dagblöðum daginn eftir. En það er óþarfi að örvænta, það er öllum hvort eð er um megn. Hjá mér líður tíminn á meðan ég bíð eftir að fá afhent húsnæði. Nóg að gera á meðan þó maður komist ekki yfir allt. Er líka duglegur í að gera ekki neitt, maður þarf tíma til þess líka.
Var í viðtali hjá Steinunni Harðar á Rás 2 um daginn og blaðraði um Indlandsferðina. Það virðast nokkuð margir hafa heyrt þetta því fólk er stöðugt að spyrja mig um þetta. Viðtalið var í þrem þáttum hjá henni en þátturinn heitir Út um græna grundu, ef ég man rétt. Nú eru jólin að bresta á og allt að kaffærast í jóladóti. Það er þó kominn snjór úti svo þetta er allt á góðri leið þó hann stoppi eflaust stutt við. Meira að segja Everest er að tapa hvítum kolli sínum smátt og smátt því við gusum of miklu af eitri út í andrúmsloftið og hitum jarðarkúluna.
Fína síðu um útivist af ýmsu tagi má sjá hér: www.utivera.is


Tuesday, October 26, 2004

Samir við sig að semja um samninga sem öllum er sama um en hafa samt sína skoðun á sama tíma
Það var mikið að maður er farinn að sofa. Eftir langar vökunætur síðustu viku (og fjarveru héðan) komst ég í Þórsmörk og naut blíðunnar. Ekki þar með sagt að ég hafi bara sofið en það var samt ljúft að sofa í dúnpokanum meðan frostið var úti. Þetta er einn fallegasti árstíminn á fjöllum, lítil umferð, kyrrðin og stillan, náttúran eins og stillimynd í sínu fegursta. Annars er alltaf fallegt og gaman á fjöllum, hvernig sem viðrar.
Það hafa allir skoðun á deilum þessa misseris en enginn virðist hafa lausn á málum. Virðist ganga í hringi stífni mannkyns og togstreita þess að einhver hafi það betra en aðrir og ég sé að missa af einhverju. Það virðist orðið fágætt í dag að fólk kunni að gera ekki neitt, geta slappað af og notið þess sem er, augnabliksins. Ég er ekki undanskilinn og þrátt fyrir fögur fyrirheit við sjálfan mig eru verkefnin farin að hlaðast í bunkum á undan mér. Í dag verð ég ríkur á veraldlega vísu þar sem auðurinn rúllar inn við stóra greiðslu eftir sölu á síðustu húseign en eins og alltaf þá stoppar slíkt stutt við. Best að njóta meðan á stendur.
Það virðist nóg af auði í þjóðfélaginu, bara misskipt ríkidæmi. Þeir ríku hagnast meira og meira en hvað fáum við? Hvað fer mikið af hagnaði auðfyrirtækja í ríkiskassann? Ef við, almúginn, öðlumst einhverjar auka krónur, þá er strax seilst í vasann og hrifsað af okkur. Eina sem virðist skila okkur af hagnaði auðvaldsins er að það er enn meira tilbúið að seilast í vasa okkar og "geyma" peningana okkar. Við höfum hvort eð er ekki gott af því að eiga peninga, við eyðum þeim bara enn meira og aukum þenslu þjóðfélagsins, hvað svo sem það táknar. Okkur má ekki líða of vel. Við erum bara púkar sem megum okkar lítils. En veita peningar okkur eitthvað meiri hamingju??? Að vera púki eða aurapúki, það er spurningin.
Húsnæðið fæ ég ekki fyrr en í desember svo það er ljóst hvað ég geri um jólin. Fram að því ætti maður að nota tímann og kaupa jólagjafir og gera jólakort, alla vega hugsa um það.
Það skrýtna er að um leið og fólk heyrir að maður er að flytja eða er á götunni þá vilja allir allt fyrir mann gera, eða, er það kannski nokkuð skrýtið? Maðurinn er félagsvera og undir það vil ég flokka náungakærleikann, viljann til að aðstoða þá sem minna mega sín. Ég á svo sem lítið bágt en það er alltaf gott að finna hlýhug þeirra sem næst manni standa og annarra. Maður missir alla vega ekki alla trú á mannkyninu.


Wednesday, October 20, 2004

Vökunætur
Best að blogga smá meðan ég bíð eftir vélinni. Er að vinna næsta tölublað af Útiveru og sit hér fram á rauða nótt. Er að gera PDF prófarkir af greinum blaðsins og verð bara að bíða á meðan. Þessu er alveg að ljúka svo ég get farið að sofa eftir nokkra daga. Hreyfingarleysi og sælgætisát heldur manni vakandi en mikið verður gott að geta hreyft sig aftur og borðað almennilegan mat.
Geisp, er farinn að sofa því tölvan hefur lokið sér af.

Friday, October 15, 2004

Nordmann
Hjá Vegagerðinni, þar sem ég vinn, er gestur frá Noregi. Hann er búsettur í norður Noregi en verður hér í nokkra mánuði. Hann hefur gífurlegan áhuga á íslendingasögum og öllu er varðar Ísland. Stundum veit ég varla um hvað hann er að tala en get oftast giskað á að það tengist íslendingasögum. Nánast allt sem hann segir tengir hann við þær og hann ER ræðinn þannig að þó verið sé að ræða smámál þá verður það langt mál. Um daginn bað hann mig að hjálpa sér við að flytja gögn á milli tölva og hann fór að lýsa fyrir mér hvað hann vildi. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég heyri nafnið Gunnar á Hlíðarenda (með norskum hreim) í miðri setningu og uppgötva að hann er farinn að heimfæra tölvur og vinnslu þeirra á Gunnar. Norðmönnum er greinilega allt fært. Er búinn að læra það að ég hlusta fyrst vel á það sem hann segir því það kemur oft langur ritual úr íslendingasögum og ættfræði út frá því áður en við komumst að efninu. Lifandi og skemmtilegur náungi og mætti halda að hann væri um tvítugt en hann er um sextugt.


Thursday, October 14, 2004

Myndarlegt veður
Veðrið þessa dagana er fremur haustlegt. Sjórinn illilegur, kaldur blástur og ofankoma í formi vatns í sæmilegasta magni. Hef stundum velt því fyrir mér hvar allt þetta vatn er. Borgar sig lítið að spá í það, maður verður jafnvitlaus af því eins og að spá í hvað stjörnurnar séu margar.
Um daginn var veðrið reyndar mjög flott þó það væri ekki mjög gott. Himininn var baðaður í rosaskýjum en sólin skein á þau þannig að þau voru mjög myndræn. Nánast eins og málaður himinn. Var ekki með myndavél til taks svo ekki náði ég því á mynd.
Það er alltaf jafn gaman að finna að einhver saknar manns og ekki skemmir það fyrir þegar lítil kríli sem maður hefur komið í heiminn sýna það. Hef ekki séð nóg af stelpunum undanfarið og voru það því fagnaðarfundir í gær þegar við fórum saman að sjá nýlega fædda dóttur hans Tolla en hún heitir Ösp. Skemmtilegt að sjá hvað börn hafa mikinn áhuga á hvert öðru, alveg strax frá fæðingu.
Hef aðeins verið að kynna mér Lomo myndavélarnar undanfarið, soldið skemmtilegar og alveg kjörið fyrir unglinga að dunda við þetta. Hægt er að taka myndir með litafilter, nokkrar saman á eina mynd, nánasteins og stuttan videóbút o.fl. Ef einhver hefur áhuga á að kynna sér þær þá er hægt að sjá þær á www.dikta.is.

Wednesday, October 13, 2004

Vökustaurar
Vökustaurar, vökustaurar. Fæ sennilega ekki nóg af þeim á næstunni. Virðist vera erfitt að vinna þetta blað án þess að lenda í pressu undir lokin og vinna fram undir morgun í nokkra daga. En nú er komið að því. Eftir þetta blað verður farið í ræktina og tekinn upp þráðurinn, þessi þunni, og tekið á því. Nokkuð sem flestir segja við sig eftir áramót, eftir sumarið og nokkrum sinnum á ári. Hreyfingarleysi mitt undanfarnar vikur fer að hætta að vera fyndið. Ég ætti að hafa nægan tíma og peninga til þess en um leið og tími gefst, tekur hið meðfædda letiblóð yfirhöndina og maður situr þar til þörfin hverfur. Eina líkamsræktin sem ég fæ þessa dagana eru hlaup upp og niður stigana í vinnunni og fótbolti einu sinni í viku. Hm, dugir ekki.

Tuesday, October 12, 2004

...
Jæja, æfingin afstaðin og allt gekk vel. Allir fundust og vísbendingar komnar í hús. Það er samt skrýtið hvað hlutir sem virðast vera augljósir eru illa sýnilegir þegar maður er að leita að þeim. Heyrði einu sinni skýringu indíána á þessu. Ef maður leitar of stíft að einum hlut, þá sér maður ekki vísbendingarnar í kringum sig. Leit á að framkvæma með því að lesa, láta umhverfið mata sig en ekki búa sér til ákveðna mynd af því sem verið er að leita að. Ekki galið.
Það styttist með hverjum deginum að slotið komi í mínar hendur en þangað til er maður bara að leika sér, heimsækja vini, eyða peningum og flest sem vinnandi fjölskyldufólk virðist gleyma að gera og týnir sér í amstri hvers dagsins. Hm, ég er að vísu vinnandi en gleymdi ýmsu undanfarin 10 ár.
Ég fer að halda að ég hafi slegið í gegn með erindi mínu um daginn um vorferðina mína því enn er verið að panta mig, nú á fund á Hótel Örk. Annað hvort er ég svona rosalega fyndinn að sjá á sviði eða vinnufélagarnir vorkenna mér.

Monday, October 11, 2004

Helgin
Róleg helgi. Fyrir utan það að ég sat nánast allan tímann og vann við Útiveru. Nú fer að líða að næsta tölublaði og þá aukast seturnar fyrir framan skjáinn til að klára að brjóta um blaðið. Það passar mátulega að þegar maður þarf að sitja inni og vinna, lesa undir próf eða eitthvað slíkt, þá er alltaf gott veður úti. Fann það bærilega í gærkvöldi, sunnudagskvöld, að það var frábært veður. Stillt, nýlega búið að rigna, þokkalega hlýtt og mátulega skýjað. Besta sem maður gerir á svona kvöldi er að fara í göngutúr til að slaka á fyrir svefninn. En hver gerir það? Ég? Nei, ég sat inni fyrir framan skjáinn "og gloede paa det". Í kvöld er svo sameiginleg leitaræfing björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu sem ég sé um. Alltaf sama sagan, maður má ekkert vera að því að vinna þessa dagana.

Friday, October 08, 2004

Fyrirlestur
Síðastliðinn miðvikudag hélt ég smá fyrirlestur hjá Vegagerðinni um Indlandsferð mína í vor.
Virðist hafa mælst vel fyrir þar sem fólk hringdi í mig sérstaklega heim á eftir til að þakka mér fyrir. Svo var hringt í mig í gær og spurt hvort ég vildi halda þetta hjá Lions fljótlega.
Ég ætti kannski að leggja þetta fyrir mig, tala um sjálfan mig og það sem ég er að gera en hingað til hef ég ekki verið maður margra orða, he he.

Hm
Eitt það erfiðasta sem ég tekst á þessa dagana er að vera án barnanna minna. Við foreldrarnir búum nú í sitt hvoru lagi og ég á götunni, nánast. Fæ ekki afhent húsnæði fyrr en í byrjun desember og þangað til sé ég dætur mínar fremur stopult. Ég hringi daglega í þær en ég finn sterklega að böndin trosna við þetta. Þetta lagast væntanlega þegar ég fæ þak yfir höfuðið en á meðan veltur það á mér að halda tengslunum. Ekki skemmtilegt en ef maður ætlar að halda sambandi við börnin sín þá er það alfarið í eigin höndum að sjá til þess.
En að öðru. Í gærkvöldi hringdi í mig fullorðinn maður norður úr landi og sagðist vera krónískur safnari á íslenska tónlist. Hann hafði fengið lista í hendurnar frá Landsbókasafninu og þar hefði hann rekist á nafn mitt og upplýsingar um að ég hefði gefið út geisladisk. Það stemmir, því árið 2000 samdi ég tónlist við ljósasýningu á Ljósahátíð Reykjavíkurborgar sem við sýndum á framhlið Háskóla Íslands og kallaði ég diskinn Karnival skugganna. Hann var að falast eftir þessum disk og mun ég með glöðu geði senda honum eintak. Er í raun glaður í hjarta og upp með mér að einhver vilji eignast diskinn. Hvort sem hann hlustar á hann eður ei, þá hefur salan rokið upp við þetta, með þessu eina eintaki. Ég spjallaði aðeins við hann og kom í ljós að hann hefur safnað íslenskri tónlist í rúm 30 ár (gefur alla erlenda tónlist frá sér sem hann fær) og á nánast allt sem komið hefur út á vinyl og CD. Þetta er gríðarlegt safn sem veltur á þúsundum, ef ekki tugum þúsunda, og eins og búast má við kemst hann ekki yfir að hlusta á þetta allt saman en segist eiga nóg pláss. Ég á eftir að heimsækja hann við tækifæri og skoða þetta safn hans en það er ekki leiðinlegt að vita til þess að minn markaðslítilláti diskur á örlítið rými þarna. Alltaf gaman að fá óvæntar símhringingar.

Thursday, October 07, 2004

Undur
Það er eitthvað að gerast í mínu lífi þessa dagana. Ég sem hef varla snert á hljóðfæri um nokkurt skeið hef sest við píanóið nokkrum sinnum undanfarið og spilað. Ótrúlegt. Var að vísu ekki mitt framtak til að byrja með en var beðinn um að æfa nokkur lög með söngkonu, svo sem ekki tiltökumál en ég hef ekki snert píanó í margar vikur. Ætti ekki að vera mikið vandamál en ég gleymdi því að sama dag var ég að fara að flytja húsgögn og fleira úr skrifstofu Útiveru. Ég var því nýbúinn að flytja slatta af þungum hlutum þegar ég mætti á æfinguna. Var viss um að þurfa að spila með hnúunum en allt gekk þetta upp. Það er því smá vonarneisti uppi í heilatetrinu um að maður fari að setjast við hljóðfærið aftur. Eins gott að það fari að gerast því nokkur tónlistarverkefni bíða handan hornsins.

Monday, October 04, 2004

Vestur
Um helgina skrapp ég vestur á firði, nánar tiltekið til Patreksfjarðar. Ók í svarta myrkri og rigningu vestur á föstudagskvöldið og var kominn stuttu fyrir miðnætti. Fínt að fara út úr bænum og stunda smá vinnu í friði fyrir erli og vera svo í góðu yfirlæti hjá gestgjöfum. Ók svo til baka sunnudagskvöldið í rigningu og hávaðasaltroki. Alltaf fínt veður fyrir vestan. Þannig fór um helgi þá.
Þetta er nú bara vest firskt og svo smá versnar það, eins og þeir segja fyrir vestan.

Friday, October 01, 2004

Rykfall
Þegar maður dettur út úr blogginu virðist erfitt að komast inn. Ekki bætir það úr skák að hlutir hérna rykfalla og verða ónothæfir. T.d. kommentakerfið sem er fyrir neðan hvern póst frá mér, það er hætt að virka. Nú þarf ég að reyna að koma því í lag (eins og öðru sem aflaga hefur farið í lífi mínu undanfarið) og athuga hvort einhverjir lesa þetta hjá mér og vilja tjá sig. Þangað til verður fólk bara að senda mér tölvupóst á jgislason@simnet.is og létta á hjarta sínu.

Tuesday, September 28, 2004

Þriðji í bloggi
Ótrúlegt en satt, ég er farinn að blogga þrjá daga í röð, þ.e. virka daga. Mætti halda að það væri ekkert að gera hjá mér. Tók í gær viðtal við Doug Scott, fjallaklifrara með meiru. Skemmtilegur fýr og ágætlega ræðinn. Þurftum að bíða af okkur stórsjó í bankanum en svo heppilega vildi til að allt bankakerfi landsins lá niðri, akkúrat þegar hann þurfti að skipta peningum.
Er að undirbúa fyrirlestur á fimmtudaginn um ferðina til Indlands og fer mesta vinnan í það að raða saman myndum.
Framundan er nóg vinna og bíða eftir íbúðinni en þá verður hægt að koma sér fyrir og hefjast handa við ýmislegt sem bíður. Þangað til býr maður bara hjá hótel mömmu.

Monday, September 27, 2004

Helgin
Fór á fyrirlestur í gærkvöldi hjá hinum þekkta fjallamanni Doug Scott. Góð mæting hjá landanum og fínn fyrirlestur. Hann hefur skemmtilega sýn á lífsstarf sitt og er hafsjór af fróðleik enda ekki margir sem hafa afrekað það sem hann hefur gert. Hefur verið fyrstur á suma af efstu toppum jarðar og ekki alltaf farið auðveldustu leiðirnar og þá á ég við andlega og líkamlega jafnt sem leiðina sjálfa. Hefur þurft að ganga á hnjánum niður snarbrött fjöll eftir að hafa fótbrotið sig og komist lífs af úr illviðrum háfjalla, m.a. svaf hann uppi á Everest í nístingskulda, u.þ.b. 50 stiga frosti. Hann var fyrsti bretinn til að ganga á Everest en Hillary, fyrsti maðurinn til að klífa hæsta tind jarðar er frá Nýja Sjálandi. Scott hefur kannski ekki alltaf verið í fararbroddi en seigla hans er ótrúleg. Í dag er hann að vísu nokkuð fótafúinn, hnén léleg og slæmur í ökklunum en þar er hann að súpa seiðið af fótbrotum fyrri ára. Magnaður fýr, næ vonandi viðtali við hann í Útiveru.
Hitti gamlan enskukennara einnig um helgina, íri sem hefur einnig skemmtilega sýn á líf sitt þrátt fyrir sín áföll. Það kemur alltaf í ljós að hafi maður nett kæruleysi í farteskinu og húmor í garð lífsins, þá kemst maður betur í gegnum þetta.

Friday, September 24, 2004

Heiladauði
Minn mættur aftur, sko til, undrin gerast enn. Var minntur á það í vikunni að ég hafi ekki sést á bloggsíðum undanfarna mánuði. Held ég hafi rankað við mér við þessa áminningu, ákvað alla vega að endurnýja kynni mín hér í bloggheimum og skrifa eins og eitt skeyti. Sjáum til hvað það dugir lengi hjá mér.
Það hefur þó ansi margt dunið á undanfarið. Búinn að selja húsið, afhenda það, fluttur í foreldrahús með allt draslið, búinn að kaupa íbúð, fæ hana afhenta í desember, búinn að kaupa bíl, hjól, tölvu, bla bla bla og peningarnir fljúga. Bankalánin komu þó á hárréttum tíma svo ég nýtti mér það og stend ágætlega fjárhagslega séð. Ákvað að leggja ekki of mikið í steinsteypu sjálfur og nota uppsafnaðann auð undanfarinna ára í sjálfan mig. Maður verður nú að líta vel út þegar maður er orðinn svona einn.
Framundan er þó nóg að gera fyrir utan að flytja þegar þar að kemur. Tímaritið Útivera hefur undið hressilega upp á sig og allt sem því fylgir. Ýmis önnur útgáfa er í gangi og svo eru tónlistarverkefni farin að banka upp á. Fjárfestingar hafa því að einhverju leyti miðast við þetta svo hægt sé að halda áfram í þeim geiranum.
Áður en ég skrifa of mikið núna og nenni því ekki næstu mánuði er best að hætta og drífa sig á flugslysaæfingu.

Thursday, July 01, 2004

Hvurslags
Það er nú meira hvað hægt er að detta út úr blogginu. Nóg að gera og þá er bloggið látið sitja á hakanum. Frá því að ég kom heim hef ég varla litið upp. Gripinn á fund við lendingu og síðan unnið baki brotnu. 3. tbl. Útiveru komið út og bók um Skyndihjálp komin í verslanir en þessa bók ættu allir Íslendingar að kaupa sér. Fara á námskeið og hafa bókina ávallt við hendina. Í bílnum, heima, í sumarbústaðnum, í bakpokanum í sjúkrakassanum, alls staðar. En það skrýtna er að vonandi þarf enginn að nota þetta. Bara ef svo væri. Bókin er sett upp með því sniði að það er auðvelt að finna hlutina. Flettiflipar framan á bókinni og efnið sett upp myndrænt og hnitmiðað með litlum texta. Þá er þetta auðveldara á neyðarstundu.
Annars virðist þetta sumar ætla að verða ágætt, veðrið þokkalegt. Var þó í Landmannalaugum þegar veðurspáin var sem verst og öllum sagt að sitja heima en fara ekki á fjöll. Kom líka í ljós að þetta kostaði eitt mannslíf, Ísraeli sem dó þar. Þeir eru svo sem að skjóta mann og annan og kannski ekkert verri dauðdagi en að falla fyrir byssukúlu eða sprengju. Nú má búast við umræðu um búnað ferðamanna á fjöllum og hvað er þá betra en að fletta upp tímaritinu Útiveru og lesa sér til um þessa hluti. Gerast áskrifendur og fá þennan nauðsynlega fróðleik inn um bréfalúguna.
Svo er maður svo skrýtinn að þegar seinni undanúrslitaleikurinn á EM fer fram, verð ég uppi á Esju. Stefni þó á að sjá úrslitaleikinn. Skyldi það verða Grikkland-Portúgal? Trúi því þó varla að jafnbesta lið keppninnar falli út fyrir Grikkjum. Tékkar hafa spilað einna skemmtilegasta boltann þó þeir séu stundum svolítið seinir í gang en þeir eru fyrir augað.
Þegar maður trassar bloggið þá gerast hlutirnir. Núna er comment kerfið hjá mér í ólagi. Þarf að koma því í lag svo þið getið mótmælt mér eða verið sammála mér.
Ég er vonandi kominn í gang aftur svo nú fáið þið nóg að gera næstu daga og vikur að fylgjast með.

Friday, May 28, 2004

Eftir gongu
Tha erum vid komin ur gongu i Sikkim, Himalaya. Frabaer ganga og frabaer stadur. Thetta var fremur blautt en mjog gaman. Hefur gengid a ymsu en allt gengid vel. Hofum sed mismikid til fjalla en margt annad forvitnilegt borid fyrir augu. Vid erum eins og geimverur her thar sem litid er um utlendinga. Hofum tekid mikid af myndum og skrifad dagbok svo eg get bara afritad hana herna inn thegar thar ad kemur, he, he. Erum i Darjeeling nuna en forum til Delhi eftir 2 daga.
Hofum gengid yfir fjoll og fyrnindi og oslad drullu i frumskogum. Blodsugur eru her um allt svo thad hefur verid mikid fjor. Maturinn hefur verid frabaer og litid um vandraedi. Haedin ekkert mal og meira ad segja Gummi tok sprett i 4.600 metra haed. Vid slepptum haesta skardinu thar sem thar var bara thoka og rigning svo vid hofum haldid okkur i ca. 4-4.500 metra haed. Vid soknum nu thegar fjallanna eftir ad vid komum til menningarinnar en nu er nyr kafli ad hefjast i ferdinni.
Er farinn ad fa mer godan indverskan mat svo eg skrifa meira sidar.

Wednesday, May 12, 2004

Hitabylgja
Thegar vid lentum i Nyju Delhi um midja nott var 33 stiga hiti. Mer fannst thad heitt. Daginn eftir for hitinn upp i 42,2 gradur og vid vorum i skodunartur um borgina, uha. Eg sa i frettunum daginn eftir ad thetta hefdi verid heitasti dagur arsins a Indlandi. Lenti i svipudu a Mallorca fyrir nokkrum arum og var daudur i 4 daga a eftir. Hef vonandi laert af reynslunni thvi eg stend upprettur enn i dag. Nu er rigningunni nanast lokid fyrir utan svo eg get haett. Skrifa meira sidar.
Tengingin er svo haeg her a netinu ad thetta tekur ar og aldir ad senda thetta. Er nanast ad missa af matnum nuna og rigningin ad byrja aftur.
Frettir fra Sikkim
Her sit eg i hlidum Himalaya (nanast) og para nokkur ord. Er i borginni Gangtok sem er hofudborg Sikkim, nyrsta herads Indlands. Mannlifid er fjolbreytt og umferdarreglur vaegast sagt framandi. Their flauta fyrir horn og allt rennur einhvern veginn saman a mjog edlilegan hatt. ADEINS 80.000 manns deyja i umferdinni a Indlandi a ari en thad er samt hlutfallslega laegra en a Islandi. Folkid er mjog vingjarnlegt en forvitid thar sem her er varla hvitan mann ad sja. Eg mun sennilega aldrei venjast thvi ad sja smaborn a gotunum og bilana smjuga framhja theim, flautandi. Folkid er alls stadar a gotunum og bilarnir thjota framhja theim, mjog nalaegt. Thad yrdu allir brjaladir heima ef thad vaeri flautad svona mikid. En einhvern veginn gengur thetta vel hja theim og bornin bjarga ser. Vegagerd her er a ymsu stigi en vida er agaetlega malbikad. Margar hendur vinna lett verk og thvi er mikid af thessu unnid med hondunum einum saman. Sumir nota tho hofudid, med skal, ker eda korfu a hofdinu og bera thungar byrdar.

Vorum fyrst i Nyju Delhi og skodudum borgina. Stor og flot borg. Thar bua opinberlega 9 millj. manns en enginn veit hversu margir eru thar i raun, thar sem engar homlur eru a folk thar. Stettarbilid er mikid tharna og saum vid folk allt fra aumustu fataekt yfir i vellaudugt folk. Vid forum i verslun sem ad mestu er fyrir utlendinga og leid mer eins og ansa tharna inni. Thad var stjanad vid okkur eins og kongafolk og bornar i okkur veitingar. Vid komum tharna mest til ad svala thorsta okkar og skoda en their reyndu eins og their gatu ad selja okkur vorur sem virkadi ad lokum og keyptum vid nokkrar gjafavorur. Skondid var ad sja tannlaekna uti a gotu vid storf.

Nuna rignir herna i Gangtok og hef eg aldrei sed adra eins rigningu, hvernig verdur thetta thegar monsoon rigningarnar byrja eftir manud? Nu thegar er storflod nidur goturnar en borgin er byggd lodrett upp hlidarnar og sumir bilar erfida vid ad keyra upp brekkurnar. Goturnar eru svo brattar ad brottustu heidavegir a Froni blikna i samanburdi. Serstok borg, mjog serstok borg.
Eigum eftir 2 naetur a hotelum en byrjum tha 17 daga gonguferd um fjoll og fyrnindi adur en vid komum til Darjeeling. A morgun er t.d. BARA 7 tima akstur i hita og raka, argh. Nogu erfitt var ad keyra til Gangtok fra Bagdogra, borginni sem vid lentum i fra Nyju Delhi.

Kemst vonandi a netkaffi i Darjeeling en fram ad thvi verdum vid sambandslaus vid umheiminn. A gongunni eru engin thorp a leidinni, bara nokkur skyli og svo tjaldbudir okkar.
Okkur var tjad ad vid vaerum fyrstu Islendingarnir i thessu heradi tho eg se fremur vantruadur a thad. Kannski i thessari borg en heradid hefur verid mjog lokad til dagsins i dag. Alla vega var logreglustjorinn mjog vantruadur thegar vid sogdum hvadan vid vaerum og thurfti ad skoda landakort til ad atta sig. Hann var samt lengi ad skoda kortid til ad vidurkenna thetta.
Turistar her eru adallega Indverjar. Vorum adeins 4 km fra landamaerum Tibet i dag en thau eru lokud allri umferd, fyrir innfaedda lika.
Folkid her er ad mestu nepalskt ad uppruna en einnig eru her Tibetar og Indverjar. Heradid virkar meira nepalskt en indverskt.
Tibetskir munkar komu her yfir landamaerin rett fyrir 1960 og byggdu klaustur sem morg eru mjog flott en ekki eins gomul og klaustur innfaeddra. Hofum verid ad skoda borgina og klaustur i nagrenninu en aksturinn er i hvert skipti 1 km nidur og 1 km upp hinu megin dalinn, nokkud lodrett.
Leidsogumadurinn okkar er mjog thaegilegur og hefur greitt gotu okkar mikid. I kvold verdur smakkadur stadarmatur fra Sikkim og ef hann bragdast jafn vel og indverski maturinn i gaerkvoldi, tha mun eg ekki geta haett ad borda. Thvilikt lostaeti.
Matarlyst er enntha god og engin afoll enn.
Komid nog ad sinni en fylgist med eftir 2 vikur ef eg kemst ad skrifum i Darjeeling.
Kvedja fra Sikkim

Saturday, May 08, 2004

Á morgun
(sunnudag 9. maí) legg ég af stað í ferðina svo ef ég skrifa eitthvað hérna þennan mánuðinn, þá eru það skrif frá Indlandi.
Að öðrum kosti verður rólegt hérna næstu 3 vikur en ég mun leita að netkaffi í Indlandi eins og ég get. Kannski þeir hafi nokkra staði í Himalaya til að auðvelda fjarskiptin, hm.

Tuesday, April 27, 2004

Fár
Pólitík er ekki mín uppáhalds tík en stundum blöskrar manni forræðishyggja stjórnmálamanna. Stjórnmál eiga að sjálfsögðu rétt á sér en persónuleg óvild á ekki að káfa þar upp á. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um fjölmiðlafrumvarpið sýnist mér vera síðustu fjörbrot Davíðs sem forsætisráðherra og tel ég að hans muni verða minnst fyrir þetta brambolt sitt en ekki fyrri gjörðir. Síðasti tónninn lifir lengst og hefði Davíð betur látið kyrrt liggja. Það er eins og menn sjái rautt ef öðrum gengur vel og ekki má segja styggðaryrði við bláu höndina. Nær væri að láta þessi mál gerjast í þjóðfélaginu og sjá svo hvað setur. Það hafa áður verið væringar á þessum markaði og mun væntanlega verða alla tíð en ég tel þetta ekki réttu aðferðina til að stýra málum. Davíð, fáðu þér hund og sestu í helgan stein.

Friday, April 23, 2004

Gleðilegt sumar
Það er greinilega vor í lofti og sumar komið. Vildi bara segja gleðilegt sumar við þá sem lesa þetta.

Tuesday, April 20, 2004

Sikkim
Smá fróðleikur um svæðið sem ég er að fara að spranga um. Sikkim er 22. fylki Indlands. Að því liggja Tíbet í norðri, Bútan í austri, Nepal í vestri og Vestur-Bengal í suðri. Heildarflatarmál þess er 7298 km². Það liggur á milli 250 og 8.500 m y.s. og er því lítið en bratt. Í skógi vöxnum hlíðunum er enn þá friður og ró fyrir margar sjaldgæfar dýrategundir, s.s. svart- og brúnbirni, sauðhirti, villisvín, hlébarða og sambardádýr. Ár og lækir eru full af laxi og silungi og rúmlega 600 fuglategundir verpa á svæðinu. Þarna er gífurlegur fjöldi ýmissa tegunda fiðrilda og annarra skordýra. Nafnið Sikkim er dregið af orðinu Sukhim, sem þýðir friður og hamingja. Tíbetar kalla fylkið 'Dejong', sem þýðir „Hinn faldi dalur hrísgrjónanna”. Íbúafjöldinn eru u.þ.b. 250.000. Höfuðborg Sikkim er Gangtok þar sem búa um 15.000 manns. Búddatrú er ríkjandi þarna. Sikkim á mikinn menningararf, sem byggist á hefðum og siðum hindúa og búddatrúarmanna. Héraðið hefur verið að opnast betur fyrir ferðamönnum síðan 1975, þegar ríkið varð hluti af Indlandi.
Meira síðar.

Monday, April 19, 2004

Virkur eða óvirkur?
Þetta er farið að virka aftur. Greinilega smá ábending um að ég eigi að skrifa oftar. Ég er alla vega orðinn virkur aftur.

Blobb blobb
Stundum er ágætt að fara í sund. Síðastliðinn laugardag skrapp ég með stelpurnar mínar í Árbæjarlaugina sem varla er í frásögur færandi nema hvað þegar við mætum þar stuttu fyrir kl. 17, þá er okkur tilkynnt að það verði lokað kl. 17. Við látum það ekki á okkur fá heldur brunum sem leið liggur þvert í gegnum bæinn yfir í vesturbæjarlaugina. LOKAÐ!!!
Hm, Seltjarnarneslaugin hlýtur að vera alltaf opin, þeir eru svo opnir á nesinu. Jú, jú, það passaði, opið til kl. 18. Við drifum okkur því ofan í en við komumst líka að ástæðu snemmbærrar lokunar Reykjavíkurlauga, árshátíð hjá ÍTR svo starfsfólkið fór fyrr heim. Við komumst í sund en mikið rosalega var kalt. Vatnið í góðu lagi en það blés svo mikið og það köldu að ég hélt að ég myndi frysta af mér ennið. Stelpurnar létu það lítið á sig fá og busluðu og létu öllum illum látum. Sérstaklega þegar ég ætlaði að taka þær upp úr, það vildu þær ekki. Stundum þarf svolítið að hafa fyrir hlutunum en það þarf ekki alltaf að vera verra.

Friday, April 16, 2004

???
Nú skil ég ekki. Sama hvað ég reyni, þá vill bloggið mitt ekki á netið. Hm, einhver draugur hér inni?
Sjáum hvað setur, þetta er kannski ábending um að ég sé of latur að skrifa.

Hva
Þetta bara vill ekki virka. Búinn að republisha, afrita, búa til nýtt. Er búið að loka mig frá bloggheimum?

Thursday, April 15, 2004

Gjugg í borg
Þar kom að því. Penninn kominn í gang eftir nokkurn tíma og miklar kvartanir. Stórtíðindi, en stærri tíðindi þykir mér það að nú er minns væntanlega á leið til Indlands. Kærkomið tækifæri sem ekki má láta úr hendi sleppa. Var boðið um daginn að taka þátt í gönguferð á norður Indlandi, nánar til tekið í héraðinu Sikkim sem liggur mitt á milli Nepal og Bhutan. Þetta er háfjallahérað en ástæðan fyrir því að það er farið þarna er að ástandið í Nepal er ótryggt svo göngumenn fara aðrar slóðir. Brottför er væntanlega 8. maí og komið aftur þrem vikum síðar. Skammur tími til stefnu en formið ætti að vera í lagi þessa dagana nema hvað kannski mataræði og slíkt sem gæti hrjáð mann. Spennandi ferð með spennandi fólki. Fámennur hópur sem leggur leið sína til fjalla. Stoppað verður væntanlega í Darjeeling einnig. Í lokin skoðum við væntanlega Taj Mahal og ætti það líka að vera upplifun. Ef ég blogga ekki á þessum tíma þá vitið þið ástæðuna en ekki væri verra að komast í netkaffi á Indlandi og blogga aðeins. Sjáum til en ég er ekki hættur hér fram að því.

Tuesday, March 23, 2004

Í kattahár saman
Hannes félagi minn og vel virkur bloggari nefnir á síðu sinni hvað kettir geta verið gáfaðir! og er með dæmisögu. Ég þekkti eitt sinn kött sem fann það út að þegar hann vildi komast heim til sín, þá bankaði hann bara. Þannig var að í þvottahúsinu (sem kisa komst inn í af sjálfsdáðum) lá barki úr þvottavélinni nálægt veggnum. Kötturinn sló í barkann svo hann bankaði í vegginn og þá heyrðu heimilismeðlimir til hans. Einn daginn hristist þvottavélin svo duglega í vindingu að hún færðist úr stað og barkinn ýttist upp að veggnum. Nú voru góð ráð dýr því ekki dugði að slá í barkann þar sem hann lá þétt upp að veggnum. En kettir deyja ekki ráðalausir. Nú togaði kötturinn bara í barkann og létt hann síðan detta utan í vegginn. Málinu reddað og kisu alltaf hleypt inn.
Talandi um ketti, þá átti ég eitt sinn læðu sem ég setti á pilluna. Það gekk ágætlega þar til eitt skiptið að ég gleymi að gefa pilluna. Eftir nokkra daga tók ég eftir breyttu háttalagi kisu og fattaði um leið hvað var að gerast. Pilluna gaf ég vikulega og ákvað því að geyma kisu inni og gefa henni sinn skammt næstu viku. Það vildi þó ekki betur til en svo að ég gleymdi baðherbergisglugganum opnum en niður úr honum voru ca. 5-6 metrar á jörðina. Fimm metra hæð stöðvar ekki fröken náttúru og var því kisa horfin med det samme niður alla metrana og sást ekki í nokkra daga. Þarf varla að segja frá því að nokkrum vikum síðar varð fjölgun á heimilinu. Það er ekki að spyrja að náttúrunni í kvenkyninu, það stöðvar þær enginn þegar þær eru komnar af stað.

Monday, March 22, 2004

Fréttir úr klefanum
Fékk loksins tækifæri til að koma skrifum áleiðis. Það er fremur dimmt hér í klefanum en næ þó að pára nokkur orð. Þarf að blóðga fingur til að skrifa með og safnaði saman þeim skeinipappír sem ég hef notað, til að skrifa á, því það er hvorki bréfsefni á staðnum né skriffæri. Aðbúnaður er fremur slæmur, aldrei búið um rúmið hjá manni, ekkert baðkar nér sturta í klefanum og hef ekki getað þreifað mig að minibarnum. Hann hlýtur þó að vera hér einhvers staðar, hef alltaf haft minibar á öllum hótelum sem ég hef gist á í Danmörku. Ég hef alltaf vitað að Danir eru fremur nískir er kemur að orkukostnaði en þetta tekur fram yfir allan þjófabálk því þeir hvorki kynda né lýsa upp staðinn. Heyri þó einstaka sinnum umgang en að flestu öðru leyti er svefnsamt hér. Veit ekki enn hvað gisting kostar á þessum stað en heyrði því fleygt að ég gæti verið lengi hér án þess að borga. Ég gef ekki mikið fyrir matinn hér og tel að það ætti að reka kokkinn, viss um að hann borar í nefið yfir pottunum. Ég bið ykkur sem þetta lesið að skila kveðju frá mér svo fólk haldi ekki að ég hafi horfið sporlaust. Verð að hætta núna því herbergjaþjónustan er að koma. Það verður kannski búið um rúmið núna.

Monday, March 08, 2004

Innikróaður úti
Það er alltaf gaman í Danaveldi en það er óþarfi að halda manni þar lengur en þörf krefur. Þar sem vinir mínir og fleira fólk hélt veglegar árshátíðir varð það þess valdandi að ég komst ekki með fluginu aftur heim á tilskyldum tíma. Ég flaug út á Standby miða og var í tvígang vísað frá eftir mikla og spennandi bið því flugið var fullt. Litlu munaði að ég kæmist með en þar sem hinir ágætu flugvallarstarfsmenn sýndu ótrúlega biðlund, sluppu síðustu slugsarnir með þó þeir hefðu mætt eftir að flugið átti að vera farið af stað.
Ég hef góða að í Köben svo ég gat setið í rólegheitum og slappað af fram á mánudag en það á eftir að koma í ljós hvort ég komist með þegar þetta er skrifað. Verð þó á klakanum innan tíðar.

Saturday, March 06, 2004

Orð frá Köben.
jæja, búinn að fara til Árósa, sótti Örn þangað og dró hann og Ragnhildi til Köben (bara svona aðeins að spilla þeim, he he). Dvel hjá Sæma bróður til sunnudags og fer svo heim ad kíkja á blaðið hvernig það kemur úr prentun. Vel á minnst, þad er minnsta málið að gerast áskrifandi. Sendið mail á utivera@utivera.is og sendið inn nafn, heimilisfang, kt., email (ef þið eruð ekki að skrifa úr ykkar hólfi en viljið fá upplýsingar, fréttir og tilboð frá okkur) og kortanúmer (VISA, Eurocard). Þið fáið blaðið sent um hæl og eruð orðin áskrifendur að blaðinu. Fáið 4 tbl. af sjóðheitu tímariti inn um lúguna. Þeir sem þegar eru orðnir áskrifendur fá sent næsta tbl. af Útiveru um leið og þeir eru búnir að borga áskriftina.

Thursday, March 04, 2004

Í kóngsins Köbenhavn
Alltaf ljúft að koma til baunaveldis. Hannes, vertu viðbúinn, ég rýk yfir til Árósa einnig og ræni og rupla. Stunda hið ljúfa líf ásamt slökun. En Útivera kemur út á þriðjudaginn svo verið nú öll spennt.

Tuesday, March 02, 2004

Innivera
Það hefur ekki verið mikil útivera undanfarið. Blaðið tafist um nokkra daga og ég sit sveittur við að reyna að klára þetta. Loksins sér fyrir endann á þessu en það hafa endalaust verið breytingar, lagfæringar og eitthvað að koma upp á, á síðustu stundu. Svo tekur þetta bara svo langan tíma allt saman. Veit að áskrifendur bíða spenntir eftir blaðinu og það má ekki valda þeim vonbrigðum. Spennan vex með hverjum degi. En þegar ég skila þessu af mér, þá er ég rokinn til kóngsins Köbenhavn að slappa af. Á það skilið tel ég eftir alla þessa inniveru. Út vil ek eða ég bara ek út.

Tuesday, February 24, 2004

Útivera
Stressið þessa vikuna snýr að því að koma 2. tbl. af Útiveru í prentun. Þetta tekur alltaf sinn tíma og efni berst seint inn. Nú er unnið fram undir morgun við að klára þetta svo ekki er mikið um svefninn. Mér hefur meira að segja verið lofað að ég fái lítið að sofa um komandi helgi en ég stefni ótrauður að því að koma þessu af mér fyrir helgi og blaðið komi út í næstu viku. Þá verður glatt á hjalla á meðan ég sef. Næg innivera hjá mér meðan ég bý til Útiveru.

Monday, February 23, 2004

Kraftaverk eða bara Kraftwerk
Í maí munu gamlingjarnir úr Kraftwerk heimsækja okkur og halda tónleika. Þangað mun ég halda en Kraftwerk er sennilega sú hljómsveit sem hefur haft hvað mest áhrif á dægurtónlist undanfarin 20 ár. Fyrir u.þ.b. 25 árum síðan (úff, getur það verið?) spilaði ég tónlist með Kraftwerk fyrir nokkra pönkara og ég hélt þeir myndu detta niður af stólunum fyrir hlátri því þeim fannst þetta ekki tónlist. Pönkið hafði reyndar gífurleg áhrif á sínum tíma á dægurlaga heiminn og hefur í raun enn.
Pestarbæli
Jæja, gamli kominn með lungnabólgu. Fór til læknis fyrir helgi og fékk það staðfest. Ég ætla að láta þig hafa lyf sem er svolítið dýrt, sagði læknirinn en það er mjög sterkt. Kostar 3.000 kr. Hva, 3.000 kr. fyrir heilsuna er nú ekki mikið hugsaði ég. En þetta voru bara 3 töflur svo það gerir 1.000 kr. taflan. Ekki nema von að lyfjafyrirtækin raki að sér fé. En nú er bara að vona að þetta virki.
Svo var líka ágætis hugmynd hér í commentunum að ef hausinn væri tekinn af þá fengi maður ekki boð um sársauka á meðan. Nokkuð til í því en ansi held ég að hóstinn yrði subbulegur fyrir vikið.
Heyrði því fleygt hvað lífið væri óréttlátt. Tvær ungar stúlkur rétt að hefja lífið deyja í bílslysi á meðan 3 menn, væntanlega með morð á samviskunni, fá að halda lífi. Er þetta ekki bara sönnun þess að það skiptir engu máli hversu vond við erum eða slæm í lífinu, okkur hefnist ekki fyrir það? Nema Douglas Adams hafi haft rétt fyrir sér og það séu geimrottur sem smíðuðu jörðina sem tilraunastofu. Alla vega húkka ég mér far með næsta geimfari þegar það á leið hjá áður en okkur verður rutt úr vegi fyrir næstu geimhraðbraut.

Friday, February 20, 2004

Foreldri
Það er ótrúlegt hvað það hefur mikil áhrif á mann að eignast barn. Fyrir utan undrið sjálft, þá er eitt af því að maður breytist í hálfgerða væmna gungu. Maður hugsar sig tvisvar um núna áður en maður leggur í eitthvað sem maður taldi lítið mál ekki fyrir löngu síðan. Hvort sem maður er að klifra kletta, hoppa yfir hengiflug, aka hratt eða hvað sem er, þá er eitthvað sem er farið að halda aftur af manni. Eitthvað sem heldur í mann, pikkar í öxlina á manni og fær mann til að hugsa áður en maður framkvæmir. Maður er hálfskælandi yfir kellingamyndum og má ekki heyra minnst á neitt sem minna má sín, maður verður bara meir eins og barnakúkur. Svona getur farið fyrir besta fólki, og reyndar hinum líka.
En slysin gera ekki boð á undan sér og þau höggva í rann sem síst skyldi. Kunningi minn sagði mér frá því að dóttir hans hafi rétt sloppið sjálf en orðið vitni að slysi þar sem góðar vinkonur hennar slösuðust alvarlega, mögulega banaslys. Hann vann ekki meira þann daginn og ég átti í raun bágt með sjálfan mig. Hvernig yrði maður ef manns eigin börn lentu í einhverju?
Vil ekki hugsa þá hugsun til enda. Það sem skiptir máli er að leyfa sér ekki að detta í hugsanir, heldur halda áfram.
Svo er líka eitt að hetjuburðirnir eldast af manni. Maður hættir að þurfa að vera fremstur eða bestur, hættir að þurfa að sanna sig. Það er búið að gera þetta svo oft áður að maður fer að skilja að það er hægt að ganga yfir götuna án þess að fara flikk flakk heljarstökk og gera betur en aðrir. Maður kemst á leiðarenda án þess.
Það er kannski þetta sem þeir kalla ellikellingu.

Lifur og lungu
Ef það væri hægt að taka hálsinn af og laga vandamál þannig, væri það fínt. En mitt vandamál er að það er bara ekkert að hálsinum á mér. Þó ég hósti, þá er hálsinn fínn. Þetta liggur allt niðri í lungum og sennilega er ég bara að reyna að æla þeim til að losna við þetta. Komst reyndar að því áðan hjá lækni, eftir röntgenmyndatöku, að ég er með lungnabólgu og fékk eitthvað rótsterkt lyf til að losna við hana. Hljóma þessa dagana eins og versti astmasjúklingur en með ekkert nefrennsli. Er þó laus við það, ennþá. Búinn að vera svona núna á fjórðu viku og orðinn frekar leiður á þessu. Liggur við að ég vilji frekar hornasarhelvítið en að hósta svona þannig að enginn svefnfriður fæst. Hóstinn er það heiftugur að ég kúgast með, kannski koma lungun að lokum upp.
Enn er allt í góðu með lifrina og undanfarið hef ég lítið verið að hamast á henni. Ef ég myndi æla henni yrði það frekar blóðugt býst ég við, þetta er svo blóðríkt stykki.
Kannski væri ráðið fyrir mig að taka bara hausinn af hjá mér.
Haldið samt aftur af fagnaðarlátunum í bili.

Wednesday, February 18, 2004

Einhentur
Stundum er gaman að lifa. Kannski tengist það eitthvað hamingju en stundum er ekki alltaf og núna er ekki stundum. Óþolandi kvefdrasl sem hangir í manni og fær mann til að hósta og hósta og hósta og hósta en það kemur bara ekkert. Eins og maðurinn sagði: Ég er að reyna að hugsa en það bara gerist ekkert. Ég er svo kátur yfir ástandinu á sjálfum mér þessa dagana að ég klappa með annarri hendi.

Thursday, February 12, 2004

Farfugl
Sá nokkuð sem er vinsælt núna en það er að gera kort yfir þau lönd sem maður hefur heimsótt. Hér er kortið sem ég útbjó fyrir mig:



create your own visited country map
or write about it on the open travel guide
Nokkuð gott miðað við kortið en ósköp segir þetta nú lítið um hvað maður hefur ferðast. Ég t.d. hef komið til Moskvu en kortið sýnir þá allt Rússland. Einnig hef ég komið stutt til Bandaríkjanna og dvalist eina viku í Kanada á afmörkuðu svæði en þessar þrjár heimsóknir fylla út nánast allt rauða svæðið á kortinu. Mínar helstu heimsóknir hafa verið innan Evrópu enn sem komið er en það á eftir að breytast. Tímasetning á því er ekki ákveðin en ekki í svo fjarlægri framtíð. Svona kort eru kitlandi fyrir egóið en segja ekki margt. Maður getur látið hugann reika til ýmissa landa, getur það talist með? En ég hef þó séð farfuglamyndina sem sýnd var á frönsku kvikmyndavikunni fyrir stuttu og var komið víða við, t.d. á Íslandi. Hún var eins og vatn í eyðimörk innan um allar amerísku B-myndirnar sem tröllríða kvikmyndahúsum landans alla daga.
Með hor í nös
Þótt ótrúlegt megi virðast er ég nánast farinn að þrá að hafa lekandi hor úr nefinu og stíflaðan háls. Undanfarna daga er ég búinn að vera með svo heifltarleg hóstaköst að ég kúgast í leiðinni en það er bara allt þurrt. Ég hef ekkert sem ég get hóstað upp svo eina sem gerist er að hausverkurinn magnast við hvern hósta. Hvað hét aftur bíómyndin þar sem hausarnir sprungu af liðinu við minnsta álag? Hún var sýnd í Gamla bíó (það er orðið það langt síðan) og á svipuðum tíma og myndin Coma var sýnd. Var þetta kannski bara hún? Hver veit nema ég hósti af mér hausinn. Þá hverfur alla vega hausverkurinn.

Tuesday, February 10, 2004

Heilsa
Nú er maður búinn að liggja yfir börnum í flensu og loksins að taka þetta sjálfur. Hósta nánast lifur og lungum án þess að nokkuð komi upp. Væri kannski ágætt að hinir háu herrar, Davíð og Ólafur Ragnar tækju flensuna og myndu liggja saman með hor í nös. Annars má Óli ekki við því að verða nefmæltari en hann er. Maður rífur þetta úr sér eftir nokkra daga til að geta klárað næsta tölublað af Útiveru. Nú hljóta allir að vera orðnir ansi spenntir eftir næsta tölublaði.

Monday, February 09, 2004

Helg helgi
Mikið djö... var þetta gott. Fara burt úr bænum og upp á fjöll. 18 stiga gaddur og sólskin, æði. Brunuðum á tveimur jeppum og einum snjóbíl sem leið lá í Áfangagil og gistum þar föstudagsnóttina. Fínn skáli. Fórum svo á laugardeginum yfir í Nýjadal og tók það nánast daginn. Meðalhraðinn svo sem ekki mikill. Snjóbíllinn skríður 15 km og jepparnir voru lengur á leiðinni. Grilluðum gott lamb í Nýjadal laugardagskvöldið og reyndum síðan að sofa í óupphituðum, hriplekum skála. Það var kalt þarna en geggjað. Nægur snjór og krummi elti okkur á röndum að sníkja mat. Dóluðum heim á leið á sunnudegi og töfðumst um fjóra tíma við að koma dekki undir aftur eftir að hafa misst það undan. Slitum alla felguboltana svo við urðum að redda okkur úr hinu framdekkinu. Gekk annars vel heim og vorum komnir rétt fyrir miðnætti heim. Endurnærður þó kvefið hafi ekki skánað við þetta né hausverkurinn. Hvort hausverkurinn er andlegur og kominn til að vera skal ég ekki segja.

Thursday, February 05, 2004

Jibbíí
Snjór, snjór, snjór. Þvílík gleði þegar ég leit út í morgun. Svona á þetta að vera. Mætti halda að það væru að koma jól. Nú fer ég til fjalla um helgina að leika mér. Jeppast, skíðast, snjóbílast og hafa gaman. Inn í Nýjadal og kannski til baka aftur. Svona á þetta að vera.

Tuesday, February 03, 2004

Allt er í heiminum hverfult
Merkilegt hvað eitt brjóst getur lent mikið á milli tannanna á fólki. Það er eins og úrslit í lokaleiknum skipti varla lengur máli. En það er margt gert til að halda frægð og er atriði Madonnu og Britney Spears þar sem þær kysstust á sviði nú óspart borið saman við þetta og reynt að meta hvort slær hitt út. Skemmtanabransinn kann sitt fag og er rausnarlegur þegar hann dregur fólk frá huglægum efnum. Sjáið bara mig, ég er farinn að skrifa um þetta. En ég mun ótrauður halda áfram að skrifa um náttúruna í mínu blaði, mun áhugaverðari náttúru. Náttúrulega!

Monday, February 02, 2004

Herra
Enn bætist við bloggarana og vil ég minnast á einn hér sem vert er að fylgjast með. Hörður Sigurðarson er mættur til leiks.
Útivera
Nú er 2. tbl. af tímaritinu Útiveru í vinnslu. Blaðið verður stútfullt af efni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þetta er spennandi verkefni og fullt af skemmtilegum hlutum að gerast í kringum þetta. Það er góð tilfinning þegar maður finnur að maður sé að skapa eitthvað sem dafnar og vex. Viðtökur við blaðinu hafa verið frábærar og hvatning til áframhaldandi vinnu við þetta. 16. mars verðu myndasýning frá ferð sem íslendingur fór um Evrópu á mótorhjóli og gerði margt skemmtilegt á leiðinni, ýmis ævintýri o.fl. Sýningin verður á Hótel Loftleiðum en grein um þessa ferð birtist í 2. tbl. sem kemur út um mánaðamótin feb.-mars. Ekki bara skemmtilegt og spennandi fyrir mig heldur lesendur einnig. Fullt af spennandi tilboðum og lesefni. Kíkið í næstu bókabúð eða matvöruverslun um næstu mánaðamót og kippið með ykkur góðu lesefni.

Friday, January 30, 2004

Fjallablámi
Það er erfitt stundum að muna að það búa ekki allir við það sama. Við höfum fjöllin og getum varla án þeirra verið en svo eru sumir sem búa við flatneskju. Hannes félagi minn býr í Danmörku svo það er ekki nema von að hann spyrji hvaða fjöll ég sé að tala um. En trúin flytur fjöll svo nú er bara að spíta í lófana og trúa, þá er málinu reddað. Svo eru aðrir sem hafa lítinn sem engan áhuga á fjöllunum í kringum okkur og bora sér niður í kjallaraholur. Fá svima ef þeir stíga upp úr stólnum, hvað þá að fara upp tröppur til að komast út. En það er bara að hrópa nógu hátt út úr holunni, kannski heyrir einhver í manni.
Kittu blogg
Kitta er félaginn minn í Flugbjörgunarsveitinni og nemandi í Kennaraháskólanaum í Reykjavík. Var að bæta henni við linkana hér til hægri.
Spakmæli dagsins
Að horfa út um gluggann á fjöllin, snævi þakin í sólskininu fær nánast hverja frumu í líkamanum til að iða og emja á hreyfingu. Nú er rétti tíminn til að truntast út úr húsi og halda upp til fjalla. Skella sér á skíði, fara í fjallgöngu, renna sér á þotu eða einhverju öðru og njóta þess að vera til, njóta alls þess sem við höfum í kringum okkur. Hvað er betra en að vera uppi á fjalli og finna kyrrðina? Sjá fegurðina allt um kring og finna hvernig líkaminn sígur í sig orkuna sem við fáum úr fjöllunum. Þetta er allt í kringum okkur svo hvernig væri að koma sér út úr dimmum skotum steinkumbaldanna sem við höfum reist utan um okkur og njóta alls þess sem náttúran hefur okkur að færa? Upp, upp mín sál.
Sama hvað ykkur finnst, þetta er það sem ég vil njóta og fíla í ræmur. Að sitja hálf rænulaus innandyra við tölvuskjá eða yfir einhverju öðru og missa af öllu í kringum okkur? Kemur ekki til mála.

Thursday, January 29, 2004

Dagurinn í dag
Að taka einn dag fyrir í einu gerir allt miklu auðveldara. Ef við lítum of mikið í baksýnisspegilinn endar það með því að við keyrum á. Ef við horfum of langt fram fyrir okkur missum við sjónar á því sem er beint fyrir framan okkur. Ef við breytumst í ófreskju eins og margir gera í umferðinni, eigum við það sterklega á hættu að valta yfir náungann. Stutt og þægilegt fyrir egóið en samviskan étur það fljótt upp. Einfalt gerir þetta þægilegt og ekki óyfirstíganlegt. Að færast of mikið í fang endar með því að hrúgan hrynur í fanginu á okkur. Það er alveg hægt að taka eitt fyrir í einu og ganga svo til baka og taka upp næsta hlut. Ekki gengur maður á öll fjöll samdægurs.

Sunday, January 25, 2004

Að brosa
Um daginn var ég svo leiðinlegur að hella mér yfir manneskju sem er mér mjög kær. Skammaði hana fyrir litlar sakir og fór síðan. Ég fór út til að skokka og þegar ég er búinn að skokka í nokkurn tíma og reiðin mér enn ekki runnin, mæti ég gangandi manni. Ég reyni að víkja en hann gengur fyrir mig svo ég fer á hinn kantinn en hann gengur aftur í veg fyrir mig og lætur síðan eins og hann sé að fara í veg fyrir mig með því að hoppa á milli gangstéttarbrúnanna. Síðan brosir hann góðlátlega og gengur fram hjá mér. Þetta augnablik sem hann brosti til mín, breytti tilverunni. Tilfinningalega hef ég verið í molum undanfarið og ekki var líðan mín sérlega góð þegar ég mætti honum en við þetta eina bros, breyttist allt. Það munaði minnstu að ég sneri við, færi til hans og faðmaði hann að mér í þakklætisskyni. Oft hef ég verið að segja við fólk að eitt bros geti breytt deginum fyrir aðra, t.d. í umferðinni en þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég upplifi svona lagað. Frábær tilfinning! Ég tek það fram að ég baðst afsökunar á reiðilestri mínum.

Tuesday, January 20, 2004

Að teygja sig lengra
Að ná langt í lífinu er draumur margra. Til þess þarf yfirleitt þrotlausa vinnu. Sumir ná langt með heppni en er það ekki bara þunn skel sem gefur undan þegar á reynir? Það vantar grunninn sem byggður er upp með vinnu og einurð og tíminn gefur okkur. Ef við gefumst upp á miðri leið, þurfum við að byrja upp á nýtt. Það er sama hvort við erum í vinnunni, heima fyrir eða hvar sem er. Ef við hættum og förum annað, þurfum við að byrja aftur upp á nýtt. Það er hægt að ná langt á ýmsum sviðum, unnið að starfsframa, byggt upp fjölskyldu, unnið í sjálfum sér eða vinum sínum. Ég tel þó mest um vert að gefast ekki upp, því þetta er þrotlaus vinna sem reynir á en gefur okkur svo mikið að lokum. Verðlaunin fram undan eru gefandi en þangað er líka þyrnum stráð braut.

Tuesday, January 13, 2004

Hamingja
Hin eilífa leit að hamingju hefur sennilega fylgt mannkyninu frá örófi alda. Hvað er hamingja?, hefur endalaust verið spurt. Ef illa gengur í lífinu segir fólk að það sé óhamingjusamt en ef vel gengur í lífinu virðist fólk oft líka vera óhamingjusamt. Íslendingar virðast vera hamingjusamastir allra þjóða en er þetta ekki alltaf bara einstaklingsbundið?
Sumum finnst þeir hamingjusamir ef þeir hafa peninga, aðrir telja peninga forsendu óhamingju.
En fyrir öllu er að hafa heilsuna í lagi og allir virðast komast á þá skoðun, misseint hjá fólki reyndar en á endanum virðist það þó vera. Hamingjan virðist fylgja einkalífinu enda erum við ekki hamingjusöm fyrir annað fólk. Ef við missum eitthvað sem okkur er kært verðum við óhamingjusöm en er ekki sagt að tíminn lækni sár? Alla vega er ekki alltaf hægt að endurheimta það sem tapað er en í staðinn þarf að byggja upp á nýtt og lifa við það. En er þetta alltaf leit að hamingju? Að finna innri frið virðist vera nokkuð nálægt hamingjunni en finnum við hana nokkurn tíma? Er hún bara augnabliks ástand? En við gerum þetta ekki ein.

Monday, January 12, 2004

Ský á himni
Úti er veðrið að láta á sér kræla og er búið að vera rok í dag. Snjórinn horfinn úr bænum, klakinn sem betur fer að losna og spurning hvort vori snemma. En ekki er rokið alltaf til trafala, stundum getur það hreinsað. Ef þungbúin ský eru á himni er gott til þess að vita að þeim er hægt að feykja á brott. Hvort sem það er rokið eða eitthvað annað sem gerir það.

Monday, January 05, 2004

Snjórinn kom
Í þá mund sem ég skrifa þetta er jólasnjórinn að endurtaka sig. Í morgun var hálkan svo mikil að hún var flögrandi um allt. Smá vatnsskán á götum og stígum og allt var fljúgandi. Þetta er neikvæða hliðin af frostinu. Þegar snjóinn tekur upp og hann bráðnar, frýs svo aftur ofan í það og hálkan verður veruleg. Var farinn að horfa fram á svartan og leiðinlegan janúarmánuð en viti menn, náttúran á sínum stað (vonandi) og nú kyngir þessu niður. Hvar endar þetta eiginlega? Ég fylgist alla vega vel með og sé hvort ég hafi tekið rétta skó með mér í vinnuna. Bíllinn á verkstæði en ætti að vera tilbúinn seinni partinn, vonandi. Þá þarf ég ekki að labba heim í svörtu lakkskónum mínum, öslandi snjóskaflana.

Friday, January 02, 2004

Á nýju ári
Það er kominn annar janúar og ég hef ekki skrifað síðan í fyrra. Gleðilegt ár allir saman og þakka það liðna. Þó nýtt ár sé gengið í garð er ekki þar með sagt að maður hætti að hugsa svo hugrenningar mínar eiga eftir að streyma hér í gegn sem fyrr. Það sem helst gengur í fréttum núna eru mannskæðir jarðskjálftar. Af þeim tölum sem maður er að sjá virðast Kínverjar eiga metið. Þó það farist 100.000 manns annað slagið, er það ekkert miðað við metið. Á 12. öld (1156) fórust um 830.000 manns í einum jarðskjálfta í Kína. Það hefur svo sem ekki séð högg á vatni. Á sama tíma voru Íslendingar að höggva mann og annan og stofna klaustur en Kínverjar voru ljósárum framar Evrópu í menningu á þessum tíma. Ég er að vísu ekki klár á hversu margir Kínverjar voru á þarna en miðað við höfðatölu þeirra í dag myndi þetta jafngilda eitthvað á annað hundrað íslendinga. Það væri blóðtaka hjá okkur. Það þarf alla vega 5.000 Kínverja fyrir hvern Íslending sé miðað við að Kínverjar séu 1.500 milljónir. Þrátt fyrir að jarðskjálftar og náttúruhamfarir hafi tekið stóran toll af mannkyninu í gegnum tíðina er það ekkert á við hlutfall styrjalda. Rússar misstu 20 milljónir í seinni heimstyrjöldinni og nasistar útrýmdu 6 milljónum gyðinga. Harðstjórar í gegnum tíðina hafa látið myrða milljónir. Hitler, Stalín, Maó, Djengis Khan, Idi Amin o.fl. Náttúran er bara barn miðað við okkur sjálf í þessum efnum. Alltaf gaman að velta fyrir sér skemmtilegum hlutum á nýju ári, ehemm.

Wednesday, December 31, 2003

Síðustu forvöð
Nú er árinu að ljúka og að sjálfsögðu líta allir yfir farinn veg. Hjá mér er margt búið að gerast en yfirleitt finnst mér óþarfi að vera að flíka því mikið sem ég geri. Mínar gjörðir eru yfirleitt fyrir mig og mína en ekki ætlunin að bera það á borð fyrir almenning. Sumt má þó koma fyrir almenningssjónir og er tímaritið Útivera eitt af því. Það hefur fengið slíkan byr undir báða vængi að við sem stöndum að því svífum hátt yfir skýjunum og óttumst að missa báða fætur af jörðinni. Kannski erum við bara svona litlir að við náum ekki niður. En eins og ég hef verið iðinn þetta árið, hefur tónlistin setið á hakanum. Afrakstur ársins á þeim miðum er ekki mikill og stendur til að bæta úr því á næsta ári. Þó ber þar hæst tónleikar í Salnum í september sem Bjarni Þór vinur minn hélt og fékk mig og fleiri til að spila með sér. Tókust glimrandi vel. Eldri markmið sem sett voru fyrir líðandi ár verða endurreist og unnið að þeim af tvíefldum móð. En svo maður sé ekki að lofa upp í ermina á sér og jafnvel buxnaskálmarnar líka, verður engu flíkað hér að svo stöddu. En margt stendur til og margt verður vonandi gert. Tímaritið Útivera mun að sjálfsögðu streyma í hendur landsmanna en margar eru hugmyndirnar og framkvæmdir vonandi eftir því. Sjáum hvað nýtt ár ber í skauti sér.

Tuesday, December 30, 2003

Vetratíð 2
Nú er gaman að lifa. Kominn almennilegur vetur með snjó og fleira. Ég skákaði alla vega veðurfræðingunum þessi jólin. Var búinn að spá hvítum jólum og sagði að það myndi snjóa eftir hádegi á aðfangadag. Sagði reyndar að það byrjaði kl. 14 en það fór ekki að snjóa fyrr en kl. 18. En þessir blessaðir veðurspámenn landsins spáðu rauðum jólum. Auðvitað var það gert á öruggum miðum þar sem það eru meiri líkur á rauðum jólum heldur en hvítum en ég er alltaf með minnihlutanum svo ég spáði hvítu.

En nú er allra veðra von
veldur mér ei kvíða
Bíð ei lengur lon og don
langar mig að skíða.

Bara ef það sem sumir skrifa
segðu það sem líkar mér.
Þeim gæti þótt meira gaman að lifa
ef gorta hættu af sjálfum sér.

Monday, December 22, 2003

Vetrartíð
Í gærkvöldi varð mér litið út um gluggann og hugsaði mér gott til glóðarinnar að fá nú loksins að arka í smá veðri til vinnu. Úti var snjór og rok svo allt var að verða hvítt og vel það.
Í morgun var svo farið að þiðna þannig að ég arkaði slabbið með stelpurnar í leikskólann og svo öslaði ég hálfþiðnaða snjópolla og mætti holdvotur til vinnu. Ég er ekki frá því að það hafi verið táfýla af brauðinu sem ég borðaði í hádeginu eða var það kannski bara af puttunum á mér eftir að hafa handleikið sokkana mína þegar ég tók þá af mér og setti á ofn til að þurrka? Alla vega er ég núna berfættur í inniskónum þar til þeir hafa þornað.
Jólin
þau nálgast og alltaf er eins og þau komi í bakið á manni. Í nóvember hugsar maður að nú skuli allt gert í tíma og losna við stressið en svo er maður bara aðeins seinni að hlutunum en árið á undan. Var t.d. að gera jólakortin í gærkvöldi og er ekki búinn. Fór í hádeginu í gær að versla inn fyrir jólin og greinilega á undan öðrum þar sem varla var hræða að versla, nema allir séu búnir á undan mér. Svona á þetta að vera en tíkallarnir fuku þarna með sínum núllum. Allt tekur sinn tíma en að þessu sinni var jólatréð keypt tímanlega. Að sjálfsögðu var það keypt hjá Flugbjörgunarsveitinni og eru sölumetin að falla hvert á fætur öðru þar á bæ. Ofan á jólin er svo barnaafmæli og er það svo sem ekki verra að dreifa huganum. Hvað komandi ár ber í skauti sér er erfitt að segja en alltaf er það jafn spennandi tími að takast á við nýtt ár.

Friday, December 19, 2003

Bloggfíklar
Það er greinilegt að bloggið hér er lesið af mikilli áfergju og gremjan lætur ekki bíða eftir sér ef ég er ekki nógu handfljótur að skrifa. Þetta er notað gegn manni á verstu stundum en ég bendi á commentakerfið hér. Ekki kommakerfi heldur commentakerfi eða athugasemdaleið þar sem fólk getur komið fram athugasemdum sínum, jákvæðum eða neikvæðum, jafnvel losað um gremju sína í minn garð eða annarra. Ég má reyndar alveg hysja upp um mig bloggbuxurnar og vera ötulli við skriftir en það er nú einu sinni jólamánuðurinn svo gremjan lætur helst á sér kræla í umferðinni í svartnættinu.

Thursday, December 18, 2003

www
What is it called?
The world wide web
And what does it do?
I don't know, it's not finished yet.
Frjáls eins og fuglinn
Eru jólin frelsi? Eru jólin ekki hefð og hefð er nokkuð sem er troðið upp á okkur. Hvað ef við viljum ekki hefðina, þá er utanaðkomandi þrýstingur að taka við henni. Frelsið felst svo sem í því að geta valið og hafnað en það er svo sem ekki alltaf svo. Ég er svoddan jólakall sjálfur að ég nýt jólanna en því miður eins og með allt sem gott er, þau eru of stutt. Verst hvað þau verða stutt næst en best að njóta þeirra þá enn betur núna.

Wednesday, December 17, 2003

Ennþá brennur mér í maga
Jólahlaðborðin, jólaglögg, jólaböll, þetta hellist allt yfir okkur núna. Samt koma jólin manni alltaf jafn mikið á óvart og eru alltaf að styttast. Þau eru þó skárri núna en næsta ár. Árið 2004 eru atvinnurekendajól, frídagarnir koma flestir upp á helgi. Búinn að fara á eitt jólahlaðborð, kokkurinn í vinnunni sá fyrir því og gerði það glæsilega og næstu helgi held ég jólaball fyrir börn vegagerðarmanna. Í huganum eru jólin alltaf frí og gott að borða en reyndin er sú að þetta er vinna og fullt að borða. Hver skyldi munurinn vera?
Jæja
þá er maður snúinn aftur úr ríki bauna. Sama veðrið þar og hér, rigning og hlýindi. Þetta er svo sem ekki hlýtt fyrir alla en það er alla vega ekki rok eins og er tíðum hér heima. Nú er svo málum háttað að búið er að handsama Saddam, ég snúinn heim og jólin að nálgast. Þetta eru greinilega miklir umrótatímar. Hvað gerist næst?

Wednesday, December 10, 2003

Milli stríða
Jæja, þá er myndasýningin að baki. Um 70 manns mættu og gekk allt vel. Áskrifendur hrúgast inn svo það er bjart framundan hjá tímaritinu Útiveru, vonandi. Alla vega er vinnan við næsta tölublað komin vel á skrið. Á morgun er það svo Kaupmannahöfn svo nú er bara að breiða út orðsporið og auglýsa Útiveru. Kannski Danir lesi ekki mikið íslensku, líklega ekki en aldrei að vita nema einhverjir Íslendingar kaupi þetta. Alla vega ætla ég að skemmta mér vel í kóngsins Köbenhavn.

Tuesday, December 09, 2003

Strax í kvöld
Í kvöld, þrijðudaginn 9. desember, býður tímaritið Útivera upp á myndasýningu á Hótel Loftleiðum kl. 20.00. Þar munu Elvar Örn Kjartansson og Kirsty Langley lýsa í máli og myndum ferð sinni upp á Denali (Mt. Mckinley), kaldasta fjall í heimi, síðastliðið vor. Að sjálfsögðu er þetta ókeypis þar sem Útivera býður. Nú er bara að drífa sig, ekkert múður við Lalla lúður og fá innsýn í fjallamennsku.

Friday, December 05, 2003

Og það rignir og það rignir
Snjórinn farinn og allt orðið svart. Ef það væri bara örfáum gráðum kaldara, þá myndi þessi rigning undanfarinna daga vera snjór. Það er búið að rigna svo mikið að sem snjór hefði þetta fyllt allar götur og garða. Í gær fór ég á fund og þurfti að labba úr bílnum örfáa metra. Vatnið hreinlega fossaði niður á meðan ég gekk þennan stutta spöl. Úr niðurföllum frá þakrennum frussaðist vatnið í allar áttir og áttu ræsi borgarinnar fullt í fangi með þetta. En eins og venjulega, stuttu eftir að ég var kominn inn, þá stytti upp. Vissi það svo sem af fyrri reynslu að almættið var bara að bleyta svolítið upp í mér. Ef maður er eitthvað þurr á manninn, þá þarf bara að bleyta í manni. Týpískt að þegar maður þarf að fara út fyrir hússins dyr, þá fossar regnið niður en þegar inn er komið, þá hættir rigningin. Ég ætti kannski að prófa að fara illa klæddur út, þá breytist þetta kannski í snjó.

Wednesday, December 03, 2003

Gamlir draugar
Sem fyrr flæddi inn póstur í pósthólfin mín á netinu. Því meira sem maður tekur sér fyrir hendur, því fleiri tölvupóstföng fær maður og stundum er maður að lesa sama póstinn mörgum sinnum þar sem fólk er að senda sömu bréfin á öll hólfin. En í dag fór þó svo að ég fékk póst um gamalt efni sem ég fjallaði um hér. Hinn ómþýða fullkomna bassatón sem flæðir um himingeima frá svartholi nokkru. Jú, mikið rétt, dottinn í það aftur.
Uppáhalds hljóðsmiðurinn minn og sá sem hannaði hljóðfærið Absynth laumaði þessari frétt að mér. Þar er útskýring á hvers vegna hljóðið nær að berast um geiminn (ef hljóð skyldi kallast, þar sem þetta er langt, langt fyrir neðan okkar heyrnarsvið). Hljóð þarf efni til að berast um og í ljós hefur komið að geimurinn er ekki eins efnislaus og menn hafa haldið. Efnið getur verið loft, vatn eða jafnvel grjót. Geymurinn er ekki algjört tómarúm heldur eru efniseindir víða, gaseindir og geymryk af ýmsu tagi. Í kringum svartholið og geimþokurnar þar í kring fyrirfinnast ýmsar eindir sem þetta hljóð berst með. En ég kem með betri lýsingu á þessu síðar.
Það sem ég velti fyrir mér var hver væri bylgjulengd þessa hljóðs og varpaði þeirri spurningu til nokkurra sérfræðinga. Einn þeirra hefur nú þegar svarað og var svar hans á þessa leið:
B fyrir neðan mið C á píanói er 233,0818808 rið þannig að B 57 áttundum fyrir neðan mið C er 1,61733044179E-15 rið (hér vantar fleiri aukastafi en vélin bíður ekki upp á það sem notuð var). Tíðni þessa hljóðs er 10 milljón ár.
Þetta er hægt að finna með því að deila í fyrri töluna með tveimur, 57 sinnum.
Lægsta B sem við getum mögulega heyrt er fjórum áttundum fyrir neðan mið C eða 14,56761755 rið en væntanlega heyra flestir B þrem áttundum fyrir neðan mið C eða 29,1352351 rið. Talandi um lága tíðni, þá er vaninn að þurrka út öll hljóð fyrir neðan 15 rið í tónlist þar sem slík hljóð heyrast ekki en geta valdið óþægindum, t.d. höfuðverk.
Varð bara að uppfræða ykkur um þetta.
Hvar er veturinn?
Mitt vetrarhjarta gladdist mikið þegar fór að snjóa um daginn. En viti menn. Allt orðið svart aftur, snjórinn farinn, runninn út í sjó sem vatn af götum borgarinnar. Síðustu leyfarnar fann ég á bílaplaninu hjá Vegagerðinni í líki klakabletta sem allir runnu á. En vonin er ekki úti, það snjóar kannski (vonandi) fyrir jól svo þau verði hvít en þangað til getur fólk ornað sér við lestur á Útiveru, heitasta tímaritinu á markaðnum í dag.

Tuesday, December 02, 2003

Jólin nálgast
Það er sama hvað maður reynir að halda í að byrja ekki jólin fyrr en í desember. Það finnst strax í þjóðfélaginu þegar búðaskreytingar breytast og jólalögin byrja að glymja. Fyrir mig verður þetta til þess að jólin þynnast út en á hinn bóginn má kannski líta á það sem svo að maður gleymir ekki jólunum. Í stressi og amstri hins daglega lífs hefur maður tilhneygingu til að ýta hlutunum á undan sér til að vinna tíma og lifa í þeirri trú að maður sé að klára hlutina við næsta horn. Ef við hefðum ekki fjölmiðla, auglýsendur og allt áreiti þjóðfélagsins til að minna okkur á hlutina, myndum við ekki hafa bara tvo daga fyrir jólin og skella okkur aftur í stressið? Jafnvel geyma jólin örfáa daga til viðbótar og mögulega slá þeim saman við áramótin til að klára þetta, spara tíma? Hver veit en meðan við höfum hinn sífellda glymjanda yfir okkur þá gleymum við ekki jólunum. Þetta er bara hluti af því að vera í sambúð með heilu þjóðfélagi. Þökk sé áreitinu!

Monday, December 01, 2003

Gamla farið
Nú er Útivera búin að vera nokkra daga í hillum verslana en ég hef ekki hugmynd um hvernig það selst. Viðtökur hafa þó verið góðar og gagnrýni jákvæð sem gefur okkur áframhaldandi bjartsýni fram yfir jól. Þar sem við höfum ekki mikið bolmagn til að auglýsa, höfum við beytt flestum ódýrum og ókeypis leiðum til að vekja athygli á framtaki okkar. Framundan eru sjónvarps- og útvarpsviðtöl, myndasýning í Norræna húsinu og fleiri kynningar, þannig að markaðsstarfið verður allsráðandi framundan. Þó ekki alveg því nú þegar erum við byrjaðir á að undirbúa næsta tölublað. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og þar sem næsta blað á að verða stærra, betra, flottara og kraftmeira, þá erum við komnir á skrið með efnisöflun.
En fyrir utan þessa vinnu þá er ég byrjaður að semja aftur. Kannski er það jólamánuðurinn sem hefur þessi áhrif en það eru einnig nokkur atriði sem hrundu mér af stað. Ég var minntur á það fyrir stuttu síðan að það sem við erum að gera í dag er það sem hefur forgang. Sama hvaða áhuga við höfum á málunum, það sem er í forgangi er það sem við gerum. Svo ef við ætlum að láta eitthvað í forgang, þá gerum við hlutina, annars sitja þeir í öðru sæti. Svo heyrði ég auglýsingu þar sem Rás 2 og Skífan auglýsa lagasamkeppni í jólalögum. Tónlist hefur ávallt verið númer 1 hjá mér en greinilega hefur hún ekki haft forgang hjá mér í þó nokkuð marga mánuði þar sem lítið hefur gerst á mínum eigin vígstöðvum í þeim málum. Nú er því kominn tími til að detta í gamla farveginn og gera eitthvað í málunum. Nú þegar eru 3 lög dottin inn en það er ekki nóg, það þarf að halda áfram. Ég ætla því ekki að hanga lengur við skriftir hér, er farinn að skrifa annars staðar.

Friday, November 28, 2003

Föstudagur
Ákvað að fá mér smá kökusneið svona seinni partinn á föstudegi. Úti ennþá bjart en skyggir hratt. Snjórinn bætir það þó aðeins upp. Á morgun á að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum en mig grunar að það standi stutt, hlýindi framundan og spurning hvort jólasnjórinn sé ekki búinn. Það má þó alltaf lifa í voninni og ef hann helst tiltölulega hlýr fram yfir miðjan desember, fer hann kannski að kyngja niður snjóflögum rétt fyrir jól. Nú er bara að fara að pússa snjóþoturnar fyrir dömurnar og bíða og vona.

Wednesday, November 26, 2003

Eggið að kenna hænunni
Einn virkasti bloggarinn sem ég les er Hannes. Ef mig minnir rétt þá atti ég honum út í þetta og er nú svo komið að hann er farinn að ýta á eftir mér. Orðinn dauðleiður á að fletta mér upp og sjá að ekkert gerist hér. En það er í raun fyrir hans tilstilli að ég drattast áfram og skrifa. En ég á eftir að hitta hann augliti til auglitis í desember (vonandi oftar en ekki) og eflaust launa honum fyrir.
Útleið
Nú geta Kaupmannahafnarbúar farið að vara sig. Brátt fer litla fjölskyldan á Nönnugötu 12 að tygja sig til flugs (tygja sig til flugs? er hægt að tala svona?). Stuðmenn voru of fljótir á sér og því missa þeir af okkur þegar við mætum í Tívolíið. En svona er þetta, það er ekki hægt að gera allt í einu. Síðast er ég sá Stuðmenn á balli/tónleikum var þegar Reykjavíkurborg hélt upp á 200 ára afmæli sitt. Hef aldrei verið duglegur að sækja tónleika nema ef vera skyldi þegar ég spila sjálfur, þá mæti ég yfirleitt.
Undrin gerast
Ha, að ég sé farinn að skrifa aftur? Nei, það var ekki það sem ég ætlaði að skrifa hér en eflaust það sem þið voruð að hugsa. Mér er efst í huga að nú er farið að snjó í henni Reykjavík og það mesti snjór um langt skeið. Það er orðið svo langt síðan að það snjóaði hér að maður er farinn að gleyma þessu hvíta efni nánast. Mér finnst það best orðað eins og dóttir mín sagði: nú er hægt að búa til engla.

Monday, November 17, 2003

Svefn
Að sofa vel er nokkuð sem ég hef ekki notið undanfarna daga. En undrið gerðist í nótt og mæli ég góðan svefn á því hvernig ég vakna að morgni til. Stuttu áður en klukkan hringdi í morgun var ég glaðvaknaður og alveg handviss um að nú væri ég að sofa yfir mig því ég væri svo vel út sofinn. En viti menn, klukkan ekki orðin 7 og ég risinn á fætur. Leit á vekjaraklukkuna og vantar alveg korter í hringingu. Nú hlaut minn að hafa dreymt vel. Eftir nokkra umhugsun tókst mér að rifja upp aðalspennu næturinnar. Mestu átökin í svefni voru draumur um vinnustað. Ég sat við tölvu og var að vinna í sal þar sem fleiri aðilar sitja við sínar tölvur og eru einnig að vinna. Ég þarf að bregða mér annað í salinn nokkurn tíma en þegar ég kem aftur að tölvunni minni er hún horfin en önnur komin í staðinn. Ég tek eftir því að nýja vélin er gömul. Hún er svo gömul að það er varla hægt að vinna grafík á hana. Ég lít í kringum mig og sé að það er nýr aðili byrjaður við hliðina á mér í salnum og hann er að setja tölvuna mína upp fyrir sjálfan sig. Ég spyr hæversklega hvort hann sé að byrja hérna og tek eftir því að þessi persóna var með mér í barnaskóla. Hann segir svo vera og er sallarólegur. Ég er ekki maður vandræða svo ég tala við minn yfirmann og nefni það að ég sé ekki par hrifinn af þessu og eigi erfitt með að vinna við þessar aðstæður. Hann bendir mér á að nýji maðurinn sé hér tímabundið svo þetta sé ekki viðvarandi ástand, ég skuli bara bíða rólegur.
Ég sætti mig ekki við það og geng að nýja manninum, bið hann um að fá að komast aðeins inn á tölvuna en á að sjálfsögðu í vandræðum með umhverfið í henni þar sem búið er að rugla minni persónulegu uppsetningu. Alltaf sama sagan, allt sett á hvolf. Ég sæki mér gögn sem tilheyra mér á vélinni og fer heim á miðjum degi.
Þessi SVAKA spennandi draumur varð til þess að ég svaf sem steinn alla nóttina og er svo vel úthvíldur að ég hef ekki vitað annað eins. Skyldi ég geta vakað núna lengi án þess að finna fyrir svefnleysi úr því ég er svona vel út sofinn að þessu sinni?
Tja, þetta er eins og alkarnir, þegar maður nær sér aðeins upp úr þessu, getur maður helt sér út í þetta af tvöföldum krafti aftur.

Tuesday, November 11, 2003

Spenna
Nú fer þetta að verða spennandi. Tímaritið komið í prentun og ég búinn að sjá próförk. Ég verð samt ekki rólegur fyrr en þetta er komið út og allt verður í lagi. Nú tekur við tími skipulagningar og hernaðaráætlun fyrir kynningu og sölu. Þessu verður dreift víða og allar helstu verslanir landsins munu selja þetta. Ég ítreka því bara að það borgar sig að gerast áskrifandi, bæði ódýrara og svo fáið þið blaðið beint heim. He, he, strax farinn að auglýsa. En það er af nógu öðru að taka og ekki síst að snúa sér aftur að blogginu.


Friday, November 07, 2003

Næturgölt
Jæja, nú fer afkvæmið að komast á legg. Undanfarnar nætur hafa farið í það að vinna nýtt tímarit sem er að koma á markaðinn og hefur svefntíminn verið milli ca. 5-7 að morgni síðastliðna viku. Á meðan hafa önnur verkefni hrúgast upp. Í dag, föstudag, mun ég verða sem svefngengill þegar ég skila af mér blaðinu til prentsmiðju og sef sennilega yfir mig þegar ég á að taka við blaðinu aftur. Annars er þetta búið að vera ógeðslega gaman og bíð ég spenntur að sjá hvernig þetta mun koma til með að gera sig. Stefnan er að blaðið komi út fjórum sinnum á ári þannig að við getum haft veglegt blað í hvert sinn. Að þessu sinni er blaðið tæpar 60 blaðsíður en stefnan er að hafa það nær 100 bls. í hvert sinn. Nú er bara um að gera fyrir alla að tryggja sér eintak af þessu stórmerkilega blaði. Svona áður en ég hætti þessu og fer að sofa áður en klukkan verður 5, þá heitir blaðið Útivera og fjallar um fjallamennsku og ýmiskonar útivist. Að sjálfsögðu er þetta frábært blað. Vil svo að lokum minna fólk á að ef það fer í einhverjar ævintýraferðir, þá taka með sér myndavélina og skrá síðan ferðalagið niður og senda blaðinu. Kíkið einnig á utivera.is. Þar kemur til með að verða efni og ýmsar upplýsingar, fróðleikur og fleira. Við erum að vísu á fullu að vinna síðuna en hún er að fæðast ansi hratt.

Friday, October 31, 2003

Tímarit
Samkvæmt venju verður sennilega lítið um blogg hjá mér um helgina. Ástæðan fyrir því er að vísu önnur en venjulega. Nú stend ég í tímaritsútgáfu og verð upp fyrir haus alla helgina í því. Ég verð á kafi við að brjóta um blaðið og veitir mér ekki af viku yfir helgina. En ég verð þó aðeins að kíkja út fyrir skjáinn um helgina og munum við karlmennirnir hittast og skrafa eða jafnvel skrjáfa þó við verðum ekki skrjáfa þurrir. En blaðið kemur út hvað sem gerist og verið viðbúin að sjá nýja tímaritið á markaðnum innan skamms, um miðjan nóvember.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?